Flóra Íslands - Byrkningar

A B D E F G H I J K L M

 

N O P R S T U V Þ Æ


Álftalaukur
Beitieski
Burstajafni
Dílaburkni
Dvergtungljurt
Eski
Fergin
Fjallaliðfætla
Fjöllaufungur
Hlíðaburkni
Keilutungljurt
Klettaburkni
Klóelfting
Köldugras
Lensutungljurt
Liðfætla
Litunarjafni
Lyngjafni
Mánajurt
Mosaburkni
Mosajafni
Mýrelfting
Naðurtunga
Skeggburkni
Skjaldburkni
Skollafingur
Skollakambur
Skorutungljurt
Skógelfting
Stóriburkni
Svartburkni
Tófugras
Tungljurt
Tunguskollakambur
Vallelfting
Þríhyrnuburkni
Þrílaufungur
Þúsundblaðarós

Lensutungljurt

Botrychium lanceolatum

verður að teljast fremur sjaldgæf á Íslandi, þótt hún sé miklu víðar en mánajurt, þekkt frá um 85-90 fundarstöðum á víð og dreif um landið. Hennar var fyrst getið af Rostrup árið 1887, og var getið  í 1. útg. Flóru Íslands um aldamótin 1900, en þá aðeins þekkt frá einum stað. Hún er algengust í Eyjafjarðar- og Suður-Þingeyjarsýslum. Venjulega er afar lítið af henni á hverjum fundarstað, oft einn toppur eða fáar plöntur. Flestir fundarstaðir eru frá láglendi upp í 450 m hæð.  Hæsti fundar­staður er í 750 m hæð sunnan í Skessuhrygg í Höfðahverfi. Vex helzt í ýmis konar graslendi, oft í mögru og snöggu graslendi, en kemur einnig fyrir í frjósömum jarðvegi. Ekki ósjaldan í sendum jarðvegi á sjávarkömbum eða í fjöru. Hefur einnig fundizt í snjódældum, lyngmóum og mosaþembu.

Sproti lensutungljurtar er 5-15 sm hár, gulgrænn á litinn, gróbæri blaðhlutinn marggreindur með klasa af hnöttóttum gróhirzlum sem opnast með þverrifu í toppinn við þroskun. Tillífunarhluti blaðsins er fjaðraður, þríhyrningslaga, oftast breiðari (1,5-4 sm) en langur (1-3sm) og situr nær alltaf mjög ofarlega, oftast rétt neðan við gróbæra blaðhlutann. Blaðpörin eru aðeins 2-4, smáblöðin eru venjulega langegglaga eða lensulaga, 7-25 mm löng, en 2-10 mm breið, djúpfjaðurskipt eða tennt, þau stærri oftast með 4 skerðingum hvoru megin.

Lensutungljurtin þekkist bezt frá öðrum tungljurtum á hinum löngu og mjóu, reglulega fjaðurskiptum smáblöðum, og á því hversu ofarlega blaðkan situr á stönglinum.

 

 

 

Lensutungljurt í fjörukambinum í Vöðlavík á Austfjörðum 23. júlí 1991.

Hér má sjá sérlega myndarlega lensutungljurt við Bjarnarflag í Mývatnssveit árið 2002.