Flóruvinir - Verkefni

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Verkefni flóruvina

Eitt af verkefnum flóruvina er að njósna um útbreiðslu plantna, fágætra sem algengra hver á sínu svæði og fylgjast með framvindu þeirra. Safna slíkum upplýsingum saman, og koma þeim á framfæri við þá sem sjá um að uppfæra útbreiðslukortin. Einnig að skipuleggja Dag hinna villtu blóma, hver á sínu svæði. Flóruvinir sem senda vilja inn upplýsingar um útbreiðslu plantna, geta gert það á marga vegu. Nota má tölvupóst jafnt sem venjulegan póst eða síma. Þeir sem þess óska, geta einnig fengið send eyðublöð til að fylla út og skila inn. Þrenns konar eyðublöð standa til boða: Áprentuð blá spjöld með helstu plöntum í stafrófsröð íslensku nafnanna, gul spjöld með sömu plöntum í stafrófsröð latnesku nafnanna, og hvít spjöld fyrir einstakar tegundir. Bláu og gulu spjöldin eru ætluð til að búa til heildarlista yfir plöntur á einum stað, eða á litlu, afmörkuðu svæði. Hvítu spjöldin henta fyrir eina tegund, áberandi eða sjaldgæfa plöntu sem menn finna á óvæntum stað, eða fyrir marga fundarstaði sömu tegundar. Nauðsynlegt er að skráningu fylgi nafn skrásetjara eða finnanda, ártal og dagsetningu, og helst hæð yfir sjávarmáli. Hún þarf ekki að vera mjög nákvæm, tilgreina má hæðarbil, t.d. 300-400 m. Hana má lesa af korti, eða skrá eftir hæðarmæli eða GPS-tæki. Að lokum þarf að skrá staðsetningu svo nákvæmlega sem kostur er. Hana má gefa upp með ýmsu móti eftir aðstæðum: Örnefni (helst af korti) ásamt staðháttalýsingu, númer reits (5 x 5 km, eða 10 x 10 km reits) ef þekkt er, (sbr. www.floraislands.is/reitakerfi.htm  ). Að lokum má gefa upp GPS-staðsetningu sem er að sjálfsögðu nákvæmast. Hentugast er þá að stilla tækið á "Icelandic grid" og þá fá menn hnit sem telja metrana frá grunnlínum sem liggja í gegn um miðju landsins. Jafnframt má lesa af þessum sömu hnitum staðsetningu í 5 x 5 km reitakerfinu. Þegar upp koma vandamál við greiningu plöntu viljum við gjarnan aðstoða. Best er í slíku tilfelli að senda þurrkað sýnishorn af plöntunni í pósti til greiningar. Stundum má einnig greina plöntuna eftir ljósmynd, sem þá er hægt að senda í tölvupósti.